144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og þær spurningar sem þar komu fram. Það er mikilvægt að fá tækifæri til að árétta að þær þvinganir sem um er að ræða, heimildir í 3. gr., taka ekki til ákvarðana eða vilja, eins og hv. þingmaður nefndi t.d. varðandi Írak. Hér er eingöngu um þvinganir að ræða, ekki er verið að veita ráðherra eða ríkisstjórn sérstakar heimildir til að styðja á einhvern hátt umfram það sem er í lögum í dag eða reglum við innrásir eða eitthvað þess háttar. Það er alls ekki verið að gera neitt slíkt.

Um er að ræða að verið er að bregðast við þróun sem má segja að hafi átt sér stað. Ef til dæmis hluti ríkja sem við störfum með innan ÖSE eða innan EES eða á vettvangi NATO vill fara í einhvers konar aðgerðir, þvingunaraðgerðir þess vegna, gegn ofbeldisfullum einræðisherrum væri væntanlega algengast að frysta fjármuni eða banna sölu á einhverju og þá gefur þetta heimild til þess.

Segjum til að mynda að innan ÖSE séu öll ríki nema þrjú eða fjögur, eitthvað slíkt, tilbúin til að fara í einhverjar aðgerðir, þá gefur það okkur heimild til að þetta sé gert að höfðu samráði við utanríkismálanefnd. Það er ekki verið að heimila ráðherra að taka ákvarðanir á borð við þær sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, enda held ég að hv. þingmaður viti vel hvað utanríkisráðherranum sem hér stendur finnst um slíkt.