144. löggjafarþing — 87. fundur,  13. apr. 2015.

nýframkvæmdir í vegamálum.

565. mál
[18:24]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni um fyrirspurn mína.

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Hæstv. ráðherra afsakar sig alltaf með því að við höfum hreinlega ekki úr meiri fjármunum að spila og það er raunveruleikinn. Þetta er sá raunveruleiki, virðulegi forseti, sem stjórnarmeirihlutinn, þar með talið óbreyttir þingmenn stjórnarmeirihlutans, láta yfir sig ganga og eru ánægðir með, þ.e. að nánast engar fjárveitingar verði til nýframkvæmda í ár því að viðhaldið sé svo mikið eins og raun ber vitni um.

Þar að auki vil ég nefna, virðulegi forseti, þó að ég standi algjörlega heils hugar að baki innanríkisráðherra að berjast fyrir meiri fjármunum, þá er þessi ríkisstjórn í annað eða þriðja skipti að taka 870 milljónir á þessu ári af mörkuðum tekjustofnum Vegagerðarinnar inn til ríkissjóðs. Það hefur aldrei verið gert nema í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þetta eru fyrstu og einu skiptin sem það er gert.

Á erfiðleikaárum þjóðarinnar árin 2008, 2009 og 2010 var varið hvorki meira né minna en 62 milljörðum kr. í stofnkostnað í vegakerfinu á Íslandi. Árin þar á eftir 18 milljörðum kr., samtals eru það um 80 milljarðar á mestu erfiðleikaárum. Staða þjóðarbúsins hefur sannarlega batnað en engu að síður kemur Íslandsmetið í að gera ekki neitt. Þannig að ég tek undir hvatningarorð hæstv. ráðherra sem hún mælir til þingheims en ég vil snúa því sérstaklega yfir á þingmenn stjórnarmeirihlutans þegar samgönguáætlun kemur fram að láta efndir (Forseti hringir.) fylgja orðum sem hv. þingmenn hafa sagt á tyllidögum, í kosningum og á fundum, að auka fé til samgöngumála, sem ekki er verið að gera miðað við það sem kemur hér. Ég (Forseti hringir.) kvíði því mjög þegar samgönguáætlun kemur loksins fram, (Forseti hringir.) því að ég held að hún verði staðfesting á því (Forseti hringir.) hvað lítið verður gert, því miður. (Forseti hringir.)