144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[18:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn og fá fram afstöðu hennar. Ég heyri að þingmaðurinn styður það að þjóðin verði spurð, að þjóðin fái að ráða hvort við höldum áfram aðildarviðræðunum. Mig langar að heyra afstöðu þingmannsins til inngöngu í sambandið og hvers vegna hún er fylgjandi henni eða ekki, miðað við þá stöðu sem við sjáum í dag. Sjálfur er ég ekki fylgjandi inngöngu í Evrópusambandið. Afstaða mín byggir á því að ég tel að það væri valdsamþjöppun. Ég held að valdið mundi færast fjær fólkinu. Ég held að það sé enn þá tækifæri til þess á Íslandi að gera það að lýðræðislegra ríki, gera það að gegnsærra ríki, ríki þar sem fólk fær í auknum mæli að koma að ákvarðanatökum sem það varðar. Við leggjum þessa tillögu fram einmitt í þeim tilgangi að þjóðin fái að koma að ákvörðun sem hana varðar. Þetta varðar þjóðina og mikill meiri hluti þjóðarinnar vill fá að koma að ákvörðun um hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðunum.

Það besta sem ég sé fyrir mér í stöðunni væri að þjóðin segði í þjóðaratkvæðagreiðslu: Við viljum klára aðildarviðræðurnar. Þá fengjum að sjá hvað væri í þeim pakka og svo vona ég að þjóðin mundi hafna honum. Í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu mundi ég segja nei, ég vil ekki ganga í Evrópusambandið. Þá væri þetta mál allt saman út af borðinu í kannski 10–15 ár, eða það væri erfitt að taka það upp aftur innan þess tíma. Þetta er eitthvað sem ég sé sjálfur sem bestu stöðuna í þessu ferli. En ég hefði viljað heyra hver afstaða þingmannsins er hvað þetta varðar.