144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[19:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna spurningar minnar og þess spurnarsvips sem kom á hv. þingmann þegar ég nefndi sumarið 2009 þá var ég að vísa til föðurlegra ráðlegginga hv. þingmanns um að forustumenn flokka ættu að standa við það sem sagt var fyrir kosningar. En ég minnist þess ekki að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi haldið slíkar ræður yfir samstarfsflokki sínum sumarið 2009 í tengslum við þetta sama mál. Þar var um að ræða skýrar yfirlýsingar af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir kosningar sem síðan stóðust ekki þegar menn settust niður og fóru að semja um stjórnarsamstarf. Og af sama tagi er auðvitað sú staða sem er uppi í þessu máli að fyrir kosningar 2013 held ég að enginn hafi getað gengið út frá því sem vísu að eftir kosningar yrði mynduð ríkisstjórn þar sem skýr meiri hluti væri gegn aðildarviðræðum, enginn ráðherra í ríkisstjórn vildi aðildarviðræður og menn stæðu frammi fyrir þeim ómöguleika sem ég tel vera fyrir hendi varðandi framhald viðræðna (Forseti hringir.) þegar hin pólitíska staða er með þeim hætti.