144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[20:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það að hlunnfara einhvern þá var ég að vitna til þess sem sjálfstæðismenn sögðu og þingmaðurinn þekkir, töluvert af hans flokkssystkinum hafa komið hér á Austurvöll og mótmælt og telja sig hafa verið hlunnfarin. Þetta var í kosningaskránni sem birtist á vefnum, það sem ég las upp áðan. Við getum svo sem haldið áfram að kýta um það. En það breytir því ekki að þetta var ekki bara einhver eða einhverjir framámenn eða forustumenn, það var auðvitað sjálfur fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sem m.a. lofaði þessu, þannig að það á nú kannski við á báða vegu.

Varðandi aðlögunarferlið eða varanlegar undanþágur þá eru þetta samningaviðræður og þær snúast um eitthvað, eitthvað til að semja um. Ég get ekki staðið hér og sagt að við fáum varanlega undanþágu, það er eitthvað sem ég tel að við þurfum að láta reyna á og skiptar skoðanir eru uppi um hvort það sé hægt eða ekki. Ef í ljós kemur þegar við tökum upp sjávarútvegskaflann — ef við gerum það — að það er ekki í boði held ég að þjóðin verði mjög sátt við að málið liggi þá fyrir. Ég get alveg sagt eins og aðrir spádómsmenn í þessum þingsal að ég telji ekki að þetta sé hægt. En ég hef samt ekki hugmynd um það. Og það að eitthvað hafi ekki verið gert einhvers staðar þýðir ekki að það muni aldrei verða gert. Það veit hv. þingmaður eins og ég.

Ég held bara að við losnum ekki við þetta úr beinunum og þjóðarsálinni fyrr en við tökum endanlega afstöðu með því að láta þjóðina fara í þetta mál með okkur, því miður, ég held að það sé leiðin.