144. löggjafarþing — 88. fundur,  14. apr. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

626. mál
[23:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með tvö erindi til hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Fyrst er að þakka honum og hrósa fyrir skilning á lýðræðinu sem ég vil meina að flestir stjórnmálamenn hafi ekki og það er sú, að því er virðist, snældubilaða hugmynd að þótt maður sé einnar skoðunar þá hugsanlega eigi samt einhver annar en maður sjálfur að taka ákvörðunina. Þetta er hugarfar sem ég vil hvetja aðra þingmenn til að temja sér þegar kemur að því að spyrja þjóðina álits á málum eins og Evrópusambandinu. Ég hef ekkert andsvar gagnvart þeim punkti heldur tek þvert á móti heils hugar undir með hv. þingmanni þegar að því kemur.

Ég hjó hins vegar eftir því í ræðu hjá hv. þingmanni að hann notar orðið aðlögun mjög mikið og vill meina að þessir styrkir hafi verið aðlögunarstyrkir, eitthvað sem ég sé ekki í orðinu á ensku. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig á að þýða þetta, virðulegi forseti, en enska heitið IPA stendur fyrir The Instrument for Pre-accession Assistance. Það er einhvers konar aðstoð fyrir ríki sem eru í viðræðum og ég sé ekkert um neina aðlögun. Mér finnst þetta ekki vera mjög góð þýðing með fullri virðingu en nóg um það.

Hvað varðar þetta aðlögunarferli. Nú nefnir hv. þingmaður að hér hafi einhverjum kerfum og stöðlum verið breytt í samræmi við Evrópusambandið. Ég spyr: Ef þetta eru ferlar eða stofnanir eða kerfi sem ekki þarf lagabreytingar til, hvað með það? Ef um er að ræða lagabreytingar þá er ég með tvær spurningar: Annars vegar, hvað með það? Við mundum þá væntanlega ræða þær lagabreytingar hér. Í öðru lagi: Hverjar voru þær?

Ef hv. þingmaður gæti frætt okkur um þetta yrði ég mjög þakklátur.