144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

framlag ríkisstjórnarinnar í kjaraviðræður.

[10:38]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég og hæstv. forsætisráðherra höfum bæði áhyggjur en það er ekki nóg. Er það ætlun ríkisstjórnarinnar að bíða eftir því að samningar náist áður en einhverju verður spilað út? Á að bíða eftir verkföllunum sem eru við það að skella á? Ætlum við að leyfa aðgerðum BHM, þar sem ríkið er beinn aðili, að halda áfram í heilbrigðisstofnunum? Ætlum við að láta biðlistana lengjast enn meira áður en nokkurt útspil kemur fram?

Að sjálfsögðu er mikilvægt að reyna að viðhalda verðstöðugleika en fyrirætlanir um að einfalda skattkerfið enn frekar eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur talað fyrir, til að mynda að fækka þrepum í þrepaskiptu skattkerfi, væntanlega ekki til hagsbóta fyrir þá sem eru í lægsta þrepi, eru ekki beint til þess fallnar að efla eða auka frið á vinnumarkaði. Ég legg áherslu á (Forseti hringir.) að góðar fyrirætlanir verði að aðgerðum í þessum málum. Samfélagið má ekki við frekari verkföllum og það er mjög mikilvægt að hugað verði að þeim sem hafa lægstar tekjurnar, þeim sem eru undir lágtekjumörkum, þeim sem geta ekki lifað mannsæmandi lífi (Forseti hringir.) af daglaunum.