144. löggjafarþing — 90. fundur,  16. apr. 2015.

heimildir lögreglu til símhlerana.

[14:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál hér á Alþingi. Ég get verið sammála hv. þm. Róberti Marshall um að það er mjög mikilvægt að við séum að tala hér um sömu hlutina. Það er ekki síst þess vegna sem ég lýsti þeirri fyrirætlan minni að vinna skýrslu um innanríkismál í innanríkisráðuneytinu sem meðal annars á að snúast um, og snýst um, heimildir lögreglu, hverjar þær eru, hvort þær séu nægjanlegar o.s.frv. Sú skýrsla liggur fyrir í drögum í ráðuneytinu. Ég var að vonast til þess að ég gæti lagt hana fram í þinginu í vor en ég þori ekki að lofa því, þetta tekur allt sinn tíma. Ég hygg að þar fáum við grundvöll til að tala um þessi grundvallaratriði; hvað það er sem við erum að tala um, hvað þetta merkir og hvað heyrir undir hvern og einn. Í framhaldinu geta menn haldið áfram að ræða hvort þeir vilja sækja frekari heimild eða hvernig þeir vilja halda á því máli.

Ég vil í því sambandi nefna að ég tel líka brýnt, þegar um er að ræða þessi mál, að unnið sé að þessu á þverpólitískan máta. Ég hafði hugsað mér að ég mundi á einhverjum tímapunkti vilja leita liðsinnis flokka í þessari umræðu. Þetta er grundvallaratriði fyrir íslenskt réttarríki hvernig við högum þessum hlutum. Eins og ég hef margoft sagt togast þarna á þessir miklu hagsmunir, gríðarlega mikilvægir mannréttindahagsmunir, grundvallarhagsmunir, og síðan öryggissjónarmiðin sem við þurfum líka að gæta að og eru samofin þeim hagsmunum. Þetta er eitthvað sem varðar okkur öll og við þurfum að geta unnið að í sameiningu.

Varðandi frumvarpið sem ég nefndi áðan á ég von á því að ég muni innan skamms leggja það fram á vef innanríkisráðuneytisins til að fá viðbrögð og umsagnir. Væntanlega mundi ég þá, ef af yrði, leggja það fram á hausti komanda.