144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:43]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svolítið skemmtilegt að vera í þingsal og ræða þrjú mál frá hæstv. forsætisráðherra, fyrst þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, svo verndarsvæði í byggð og síðan þjóðlendur. Ég segi þetta vegna þess að sérstaklega þegar ég las frumvarpið sem er til umræðu, um verndarsvæði í byggð, datt mér í hug að við værum að sigla inn í það að forsætisráðuneytið stýrði ansi miklu í þessu landi, því að það má segja að margt bendi til þess að forsætisráðherra verði eins konar yfirbæjarstjóri landsins og sveitarfélögin að hluta sett undir forsætisráðuneytið. Þar að auki er ráðuneytið með eftirlit á ákveðnum köflum, eins og í 7. gr. þessa frumvarps.

Ég ætla þó að vona að það hafi verið mismæli hjá forsætisráðherra eða misheyrn hjá mér þegar hann sagði að líka ætti að vernda fólk í þessu. Ég veit ekki alveg hvernig hann ætlar að gera það.

Að öllu gamni slepptu ætla ég að gera athugasemd við og velta vöngum yfir því að málið skuli fara til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, hvar ég á sæti. Mér finnst einboðið að málið fari líka til umhverfis- og samgöngunefndar þar sem sveitarstjórnarmálin og skipulagsmálin eru, því að þetta mál varðar ekki síst þá þætti.

Enginn ágreiningur hefur komið fram í ræðum hingað til um þá viðleitni og hugmynd að reyna eigi að vernda byggðarheildir eða hverfi og skapa þannig grundvöll fyrir menningarsögulegt og listrænt gildi einstakra bæjarhluta, að það sé með einhverjum hætti tryggt. Aftur á móti vekur mér undrun hvernig búið er um það mál, hvernig farið er með það í þessu frumvarpi og hversu mikið ákvörðunarrétturinn er, eins og ég sagði, hjá hæstv. forsætisráðherra, þótt minjaverndin hafi farið þar undir. Það er ítrekað tekið fram, það eru held ég fjórar reglugerðarheimildir í frumvarpinu sem eru meira og minna um sjálfsákvörðunarrétt hæstv. forsætisráðherra til að setja reglugerðir. Þar eru líka alveg klár ákvæði sem taka fram að þegar sveitarfélög eru búin að ákveða hlutina þurfi að bera þá undir ráðherra. Ég held að nauðsynlegt sé að skoða þetta frumvarp með tilliti til stjórnskipunar um vald sveitarfélaga og hins vegar ríkisvaldsins. Þetta er almenn athugasemd sem ég held að við þurfum að skoða.

Nú vitnar hæstv. forsætisráðherra í erlend lög og auðvitað er ástæða til að skoða þau, en ég þekki ekki hvernig þau vinna með öðrum lögum í viðkomandi löndum eða hvort þetta heyrir undir forsætisráðherra á hverjum stað. Til dæmis í 4. gr. frumvarpsins hefur ráðherra frumkvæðisheimild til þess að fela Minjastofnun að útbúa tillögur um tiltekna byggð sem að mati ráðherra hefur varðveislugildi á landsvísu. Í sömu grein er gert ráð fyrir að ráðherra taki ákvörðun um vernd byggða að fenginni tillögu sveitarstjórnar eða Minjastofnunar, þ.e. ráðherrann er alltaf settur yfir varðandi það. Til að þetta geti gengið þarf miklu skýrari lagaákvæði og varðandi aðkomu hverra og hvernig í sambandi við það ferli.

Í 7. gr. segir að samþykkt sveitarfélags skuli senda ráðherra til staðfestingar og skömmu seinna kemur fram að ráðherra meti hvort samþykkt sé í samræmi við varðveislugildi svæðis. Nú kann að vera að hægt sé að vitna í einhver önnur lög og sækja þetta í skipulagslög og umhverfislög og annað slíkt, en í fljótu bragði virka þetta býsna mikið sem einræði forsætisráðuneytisins, þó að það sé komið í minjavörsluna, og gengi á rétt sveitarfélaganna.

Í 8. gr. er kafli sem heitir Nauðsynleg verk innan verndarsvæðis í byggð. Þar stendur að ákvörðun sveitarstjórnar sé háð samþykki ráðherra. Það er eitthvað sem þarf að skoða mjög vel. Ég veit að sveitarstjórnirnar hafa rekið augun í þá setningu og gert athugasemdir við hana þótt þau eigi eftir að skila formlegri umsögn um þau ákvæði.

Ég get ekki séð annað en að margt af því sem hér er verið að setja inn sé nú þegar í skipulagslögum, í lögum um menningarminjar, og einmitt þetta um hverfisverndina sem hefur verið rætt, og hvernig það á að spila saman. Ég þarf að fá miklu betri skýringar á því en þetta frumvarp gefur. Þetta varðar líka stjórnsýsluna í heild. Það kom á óvart þegar hæstv. ríkisstjórn færði málaflokkinn frá menningar- og menntamálaráðuneytinu yfir í forsætisráðuneytið, þ.e. mál Minjastofnunar, húsverndunin og annað slíkt. Oft er þetta gert ef einhver málaflokkur á að hljóta sérstakt vægi, kannski er þetta tímabundið á meðan núverandi hæstv. forsætisráðherra hefur sérstakan áhuga á málaflokknum, en mér finnst það ekki vönduð stjórnsýsla að reyna ekki að búa þannig um að þetta sé skipulagt og einfalt og að sömu stofnanir og sömu aðilar fjalli um sambærileg mál.

Þetta endurspeglast í því hvert þetta mál fer innan þingsins, þ.e. til allsherjar- og menntamálanefnd. Sá ágreiningur gat svo sem verið fyrir áður, þar sem annars vegar stangast á hver fer með skipulagsvaldið og hins vegar varðveisla menningarminja.

Eins og ég sagði áðan er ítrekað fjallað um að gengið sé á rétt sveitarfélaganna og valdið tekið úr höndum þeirra sem eru með faglega þekkingu. Nú er auðvitað búið að styrkja deild innan forsætisráðuneytisins sem fer með minjavörsluna og í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að það verði neinn viðbótarstarfskraftur. Hvar eru sérfræðingarnir sem vinna á bak við hæstv. forsætisráðherra þegar verið er að vinna sérstaklega með þetta, ég tala ekki um varðandi frumkvæðisskylduna og annað slíkt? Kannski er Minjastofnun til þess burðug og án samráðs þá við alla hina. Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram að það þarf að vera miklu skýrara hver hlutur sveitarfélaganna er, aðkoma íbúanna, frumkvæði íbúa til að koma með hugmyndir og hvernig á að fara með þær o.s.frv.

Sama gildir þegar fjallað er um að gera eigi sérstaka áætlun á fjögurra ára fresti. Það er almennt ákvæði um það í skipulagslögum og þá spyr maður: Er það ekki nóg? Er ekki tryggt að þetta heyri þar undir og á fjögurra ára fresti uppfæri menn skipulagslögin, framlengi þau og undir því verði minjaverndin og þar með varðveisla sérstakra byggða?

Ég skora á nefndirnar og þingið að skoða það sérstaklega og vona að sveitarfélögin komi kröftuglega inn í umræðuna. Að mínu mati er markmiðið í sjálfu sér jákvætt en umgjörðin ekki góð.

Það eru vangaveltur frá þeim aðilum sem hafa skoðað þetta nú þegar. Það kemur til dæmis ekki fram í þessu frumvarpi sem alltaf kemur fram þegar maður skilar frumvörpum, að lagt sé mat á það hvort þetta gangi á stjórnarskrárvarinn rétt einhverra, í þessu tilfelli sveitarfélaganna. Það er ekki fjallað um neitt slíkt í þessu. Það er ekki fjallað um við hverja var haft samráð. Það kemur að vísu í ljós að menn hafa óskað eftir kostnaðarmati frá sveitarfélögunum hvað varðar heildarkostnaðinn við frumvarpið, en það má lesa í þeim athugasemdum ákveðin undirtón þar sem sveitarfélögin virðast ekki vera mjög hrifin af þessari lagasetningu. Þau telja að hún gangi á rétt sveitarfélaganna, þótt það sé ekki sett inn í áhrif frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaganna, enda er það sérkafli áður en kemur að áliti fjármálaráðuneytisins.

Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í þessari umræðu en mun fylgjast með henni þegar ég hef kost á. Ég þarf að yfirgefa húsið eftir augnablik en vona að okkur takist að setja málið í betri farveg en hér hefur verið gert. Mér finnst ekki boðlegt í nútímastjórnsýslu að ef einstakir ráðherrar hafa áhuga á einstökum málum geti þeir hrifsað til sín málaflokkinn. Jafnvel þótt þeir geti unnið málum verulegt gagn, eins og hefur komið fram — t.d. í styrkveitingum til að varðveita heildarmynd, m.a. á Ísafirði eða í nágrenni, ef, ég man rétt, þar sem verið er að búa til þrívíddarteikningar og annað að frumkvæði hæstv. forsætisráðherra, sem er út af fyrir sig mjög jákvætt — verðum við að setja þetta í hinn gírinn, að það komi ráðherra sem hefur engan áhuga á málaflokknum. Umgjörðin þarf að vera óháð því hver stýrir málaflokknum á hverjum tíma, eins og hægt er, þannig að frumkvæðið sé áfram hjá sveitarfélögum, í stjórnsýslunni, hjá almenningi, en ekki háð geðþóttaákvörðun hæstv. ráðherra.