144. löggjafarþing — 93. fundur,  21. apr. 2015.

þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland.

695. mál
[20:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er rétt að þessi stefnumörkun í varnarsamstarfi norrænna ríkja á sér nokkurn aðdraganda og við höfum svo sannarlega fengið fréttir af því, bara á síðustu dögum, að hún er að fá meira, ég veit ekki með gildi en að minnsta kosti meira vægi þar sem ég mundi segja að það hafi hreinlega orðið breyting á því hvernig þeirri hernaðar- eða varnasamvinnu er háttað.

Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni í því að þetta sé góð þróun eða jákvæð því að ég tel að það hefði mun meira gildi í þágu friðar í heiminum ef Norðurlöndin legðu einmitt frekar áherslu á samstarf þar sem þau mundu sameinuð tala meira í þágu friðar og afvopnunar. Miðað við það sem nú er að gerast finnst mér frekar verið að tala í áttina að ákveðinni stigmögnun, sem við tökum þá þátt í með öðrum ríkjum hins vestræna heims. Mér finnst þetta ekki fara í rétta átt heldur tel ég að Norðurlandaþjóðirnar gætu lagt meira af mörkum með því að beita sér saman með öðrum hætti.