144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

hugmyndir um stöðugleikaskatt.

[15:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ræða hæstv. forsætisráðherra á flokksþingi Framsóknarflokksins á dögunum vakti þó nokkra athygli og sérstaklega kaflinn um afnám haftanna. Þar boðaði hæstv. forsætisráðherra, af talsverðu afdráttarleysi að mínu viti, stöðugleikaskatt, sem yrði lagður á þrotabúin, að sú aðferð yrði notuð við afnám hafta. Þetta kom mér aðeins á óvart. Þó að ég sé jákvæður gagnvart hugmyndinni um skattlagningu til að losa um þennan vanda taldi ég að við værum kannski ekki á þeim stað í vinnunni, því enn ætti eftir að leysa mjög mörg álitamál. Það kom mér á óvart þetta afdráttarleysi eða tal um að fara ætti stöðugleikaskattsleiðina — sem var raunar hugtak sem ég hafði ekki heyrt áður, ég hafði heyrt talað um útgönguskatt, en gott og vel, það er ekki aðalatriðið — og að fram væri að koma frumvarp nú í vor um það.

Eftir að ræðan var flutt hafa spurningarnar vaknað eða orðið fleiri og vaxið. Ég kem eiginlega hingað upp sem eitt stórt spurningarmerki í þessu. Er búið að ákveða, og þetta er spurning mín til hæstv. forsætisráðherra, að nota stöðugleikaskatt sem leið til að létta af höftum? Og er þá búið að fara í gegnum aðra kosti og útiloka þá? Er búið að leysa öll helstu álitamál sem eru tengd þessari leið?

En grunnspurningin er bara: Er búið að ákveða þetta og útiloka aðra kosti?