144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

verndarsvæði í byggð.

629. mál
[16:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fæ bara ekki séð hvernig getur leikið minnsti vafi á því að þetta mál eigi að fara í umhverfis- og samgöngunefnd. Hér er að vísu verið að setja sérlög en svo eru taldar upp breytingar á öðrum lögum en þær breytingar eru allar á skipulagslögunum þannig að þessi löggjöf varðar eingöngu skipulagslögin fyrir utan hvað hún er sjálfstæð sem sjálfstæð lög. Ég held að algengasta orðið hér sé orðið sveitarstjórn eða sveitarstjórnarstigið. Líklega kemur fyrir orðið sveitarstjórn eða sveitarfélag 15–20 sinnum og svo skipulagsmálin. Það er eiginlega ekkert í þessu annað en málefni sveitarstjórna og skipulagsmál.

Hvað segir í 13. gr. þingskapa um umhverfis- og samgöngunefnd? Að hún fjalli um umhverfismál, skipulags- og byggingarmál og svo síðar um málefni sveitarstjórnarstigsins og verkaskiptingu þess og ríkisins. Þetta er allt um það. (Forseti hringir.) Málið í heild sinni fjallar um þetta atriði þannig að það getur ekki einu sinni verið neinn minnsti lagalegur vafi á því að samkvæmt þingsköpum eigi þetta mál að fara til umhverfis- og samgöngunefndar.