144. löggjafarþing — 94. fundur,  22. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:00]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og langar aðeins að spyrja um nokkur atriði. Það kemur fram neðst á bls. 34 að draga eigi úr bilinu milli lægstu skattþrepanna með það að lokamarkmiði að fella þau saman í eitt þrep. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé sú skattstefna sem hann styður og hvort hann telji þetta eiga til dæmis vel heima í kjaraviðræðum núna, slíkt markmið sem kannski kemur þeim sem lægstu launin hafa síður að gagni en þeim sem hærra eru launaðir.

Annað sem kemur kannski líka verr við þá sem minna hafa á milli handanna er aðhaldsmarkmið upp á 1% sem á að hafa í öllum málaflokkum. Það á að skila 5,5 milljarða lækkun á útgjöldum og það á að vera hluti af árlegum útgjaldaramma. Ég skil það sem svo að þá ætlum við að draga saman um 5,5 milljarða á því tímabili sem hér er undir. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þar beri kerfið okkar, innviðirnir, eins og heilbrigðiskerfi og menntakerfi sem við höfum rætt mikið hér, skarðan hlut frá borði? Þótt maður geri ráð fyrir að því verði kannski að einhverju leyti hlíft er það samt ekki dregið fram hér. Mér þætti áhugavert að vita hvernig hann sér þetta tvennt fyrir sér í fyrri atrennu.