144. löggjafarþing — 96. fundur,  27. apr. 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:45]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að grípa boltann varðandi óreglulegu liðina vegna þess að það vekur athygli hvað þetta er há upphæð og margir liðir. Ég veit ekki hvort ég skildi hv. þingmann rétt en ég er ekki alveg sammála að allir þessir liðir ættu einmitt að vera teknir frá, t.d. niðurfærsla á verðtryggðum húsnæðisskuldum sem eru 18 milljarðar á næsta ári og síðan ekki söguna meir.

Margt af því sem er hér verður alltaf kostnaður. Við erum með vaxtagjöldin sem eru út tímabilið 70–80 milljarðar. Lífeyrisskuldbindingarnar eru áfram, sá liður hverfur ekki en með Íbúðalánasjóð er meiri áhætta og ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði árið 2018. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er 19–20 milljarðar á ári þannig að ég spyr hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér í því að undir þessum óreglulegu liðum ættu frekar að vera liðir sem við sjáum ekki alveg fyrir kostnaðinn við. Jafnvel er kostnaður eitt árið og ekki næsta. Kannski gæti atvinnuleysi fallið þar undir, en getum við ekki verið viss um að það verði einir 20 milljarðar alveg fram í tímann vegna Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem á væntanlega ekki að fara að leggja niður? Af hverju er það óreglulegur liður?

Ég hjó eftir töflunni á bls. 40 og las hana ítarlega vegna þess að mér finnst sérstakt að taka 160 milljarða út fyrir sviga og skella merkimiða á þá sem heitir óreglulegir liðir.