144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það fer ekki fram hjá neinum að ástand gatna í Reykjavík og víða á þjóðvegum landsins er bágborið vegna viðhaldsleysis. Á eldsneyti á bíla eru lagðir háir skattar, bæði olíugjald og bensíngjald. Þeim sköttum er ætlað að standa undir gerð og viðhaldi vega.

Árið 2010 var lögfest undanþága frá þessum gjöldum á eldsneyti á borð við lífolíur. Árið 2013 voru menn svo skyldaðir til að blanda hefðbundið eldsneyti með slíkum lífolíum. Þau íblöndunarefni sem hingað til hafa verið flutt inn eru tvöfalt dýrari en hefðbundið eldsneyti. Það liggur því fyrir að þessi skattaívilnun hefur nær öll runnið úr landi til erlendra framleiðenda á lífolíu.

Nú liggur fyrir að ríkið verður af mörg hundruð milljónum króna á ári vegna þessarar skattaívilnunar. Vegaféð rennur viðstöðulaust úr landinu, mörghundruð milljónir. Það samsvarar í raun öllu því fé sem Reykjavíkurborg eyðir árlega í viðhald gatna. Um leið kemur minna fé til vegaframkvæmda. Það er beinlínis verið að nota vegapeninga til að niðurgreiða innflutning á jurtaolíu, tekjur sem ríkið hafði áður af eldsneytisgjöldum renna núna úr landi í niðurgreiðslu til innkaupa á dýru eldsneyti.

Ég nefni þetta hér því að ég, ásamt mörgum öðrum hv. þingmönnum, hef lagt fram frumvarp til laga þar sem ætlunin er að stöðva þetta stjórnlausa flæði fjármagns úr landinu. Ég tel málið afar brýnt því að um er að ræða hagsmuni ríkisins upp á mörg hundruð milljónir króna. Ég hef hins vegar af því áhyggjur að lagafrumvörp þingmanna séu ekki á dagskrá það sem eftir lifir þessa þings, að minnsta kosti er ekkert sem bendir til þess í dagskrá þingsins. Einungis eitt lagafrumvarp þingmanns hefur verið samþykkt á þessu þingi og einungis eitt frumvarp bíður 3. umr. Ég tel það til mikilla vansa ef þessi grunur minn reynist réttur og vil hvetja forseta, sem hefur talað máli þingsins, einlæglega til að beita sér að þessu leyti og tryggja á borði en ekki bara í orði lýðræðislega umræðu um mál þeirra sem kjörnir hafa verið til að fara hér með löggjafarvaldið.