144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

húsnæðissamvinnufélög.

697. mál
[18:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er hv. þingmaður að segja að fólkið sem er í Búseta eða öðrum húsnæðissamvinnufélögum eigi ekki að fá höfuðstólsniðurfærslu eins og aðrir á húsnæðismarkaði, að tekin hafi verið ákvörðun um það? Maður hlýtur að spyrja: Er engin alvara á bak við orð sumra framsóknarþingmanna og -ráðherra um mikilvægi leigumarkaðar eða húsnæðissamvinnufélaga? Eru engir fjármunir sem fylgja þeim orðum? Er eina framlagið það að snikka eitthvað til löggjöfina í kringum þetta en skilja fólk eftir með stökkbreyttu lánin í húsnæðissamvinnufélögum, snikka löggjöfina eitthvað til í kringum leigumarkaðinn en koma ekki með neina peninga inn í stofnstyrki eða húsnæðisstuðning? Frumvörpin sem hv. þingmaður var að vísa til um slíkan stuðning sem þau félög gætu nýtt sér eru föst í fjármálaráðuneytinu, vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefur ekki gengið frá neinum fjárveitingum til að fylgja þeim frumvörpum eftir.

Ég bið um að þingmaðurinn sé alveg skýr um það: Liggur sem sagt fyrir ákvörðun um það að þeir sem búa í Búseta eða öðrum húsnæðissamvinnufélögum njóti ekki jafnræðis á við aðra á húsnæðismarkaði og fái ekki niðurfærslu á stökkbreyttum húsnæðislánum sem hvíla á þessum húsnæðissamvinnufélögum?