144. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2015.

meðferð einkamála o.fl.

605. mál
[21:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um að hinir vísustu menn hafi farið vel yfir þetta allt saman.

Ég skildi ákvæði 8. gr. svo í barnaskap mínum að það væri til einföldunar, að það væri vinnusparnaðarákvæði, þ.e. í stað þess að ganga frá skriflegum úrskurði í tiltölulega einföldum málum gæti dómari látið við það sitja, eins og þar stendur, að skrá úrskurðarorð í þingbók og færa munnleg rök fyrir niðurstöðunni. Ég hélt að hugsunin væri sú að spara sér hina skriflegu vinnu ef hitt er talið nægja en fara síðan í það ef málinu verður áfrýjað o.s.frv. Ég hef þá skilið það rétt og geri þá ráð fyrir því að í þessu hljóti að vera það mikill sparnaður að það réttlæti að slaka á kröfunum að þessu leyti eða hvernig sem við orðum það.

Mig langar líka að spyrja, úr því ég hef tíma, út í endurupptökuákvæðið sem við könnumst við af mikilli umræðu undanfarin ár. Ég geri ráð fyrir að kveikjan að því sé að einhverju leyti þær umræður sem hafa orðið um endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála. Þetta er hins vegar almennt ákvæði sem gildir til framtíðar. Ég spyr hvort eitthvað sé að frétta af hinu eina sanna og stóra Guðmundar- og Geirfinnsmáli og endurupptöku þess. Nú er nokkuð um liðið síðan Alþingi kláraði, ef ég veit rétt, breytingu sem dugir gagnvart því máli sem þetta mundi hins vegar leysa ef hitt hefði ekki komið til. Mér leikur nokkur forvitni á að vita um stöðu málsins og hvort það sé réttur skilningur að þetta ákvæði muni duga í öllum sambærilegum tilvikum til endurupptöku máls þótt sá dæmdi eða dómfelldi sé látinn, þ.e. að öðrum skilyrðum endurupptökunnar uppfylltum.