144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mig langaði aðeins að fjalla um alþjóðastarf þingmanna. Ég gerði mér grein fyrir því fyrir nokkrum árum að ekki er til neitt formlegt ferli fyrir það starf sem þingmenn taka þátt í erlendis, sér í lagi ályktanir sem þeir taka þátt í að samþykkja, hér á Alþingi. Ég komst að því á síðasta fundi Alþjóðaþingmannasambandsins að við stöndum mjög mörgum ríkjum að baki. Suður-Afríka og Kenía hafa þróað mjög góð ferli um hvernig vekja eigi athygli á og hvetja stjórnvöld til að samþykkja þær ályktanir sem við tökum þátt í að samþykkja á alþjóðavettvangi.

Mér finnst mjög brýnt að við skoðum hvernig aðrar þjóðir gera þetta. Ég ræddi við forseta Alþjóðaþingmannasambandsins þegar ég var þar fyrir stuttu á fundi og spurði hann út í þessi mál. Hann sagði að eftir ár yrði sérstakur fókus settur á þetta hjá Alþjóðaþingmannasambandinu; það þing mun snúast um hvernig hægt sé að hvetja til þess að eitthvað verði úr þeim mjög svo mikilvægu ályktunum sem við tökum þátt í, þingmenn frá 163 löndum, t.d. á þeim vettvangi.

Mig langar til að spyrja samþingmenn mína hvort þeir styðji mig ekki í því að við búum til faglega ferla um það hvernig og hvað verður um umræðu — einungis einu sinni á ári er fjallað um skýrslu alþjóðastarfs sem er fráleitt. Ef við erum að taka þátt í þessu starfi finnst mér að við eigum að gera það þannig að það skili sér hingað heim.