144. löggjafarþing — 98. fundur,  29. apr. 2015.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

703. mál
[15:56]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að hæstv. forsætisráðherra hefur skilning á þeim sjónarmiðum sem ég viðraði hér um friðun miðhálendisins. Ég tel brýnt að við nýtum þann tíma sem við höfum á þinginu til að ræða þessi mál á sama tíma og við horfum á þennan vaxandi ágang ferðamanna og það er mjög brýnt að við förum að ræða þau mál út frá framtíðarsýn.

Ég legg áherslu á að það kann að vera að þetta hafi ekki áhrif, en ef það eru aðrar skilgreiningar í þeim lögum sem gangi í gildi eftir samstarf umhverfis- og samgöngunefndar og hæstv. umhverfisráðherra þá finnst mér mikilvægt að menn séu meðvitaðir um að það kunni að hafa áhrif, en fyrst og fremst snýst þetta auðvitað um orðalag og skilgreiningar.