144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

staðan í kjaradeilum.

[15:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Forseti. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns af stöðu mála. Það er allt í hnút, bæði á almenna markaðnum og í viðræðum við ríkið, það hefur því miður lítið þokast og menn hafa vísað deilum til sáttasemjara sem hefur ekki náð að miðla málum. Við höfum rætt það áður í þessum þingsal, það hefur mikið borið í milli. Ríkisstjórnin hefur að sjálfsögðu verið reiðubúin til þess að ræða ýmsar hliðar þessarar vinnu, þar með talið að beita opinberum aðgerðum til að koma til móts við þær kröfur og væntingar sem uppi eru, og við höfum átt fjölmarga slíka fundi. Síðast átti ég slíkan fund í dag, þannig að það er mikill misskilningur ef menn halda að ráðherrar í ríkisstjórninni sitji hjá og bara bíði og voni, það er svo langt í frá.

Hins vegar stöndum við sameiginlega frammi fyrir því stóra álitamáli hvernig við getum fært launþegum landsins raunverulegar kjarabætur sem endast. Áhersla okkar hefur verið á það að samhliða því að gera nýja kjarasamninga verði verðbólgunni haldið í skefjum og styðja þannig við frekari kaupmáttaraukningu. Kaupmáttaraukning á síðustu tólf mánuðum var á Íslandi einhver sú mesta sem mælst hefur í Evrópu. Það var á grundvelli þess að verðbólgan fór niður undir um 1% og hefur verið þar síðastliðna mánuði. Það er gríðarlega sterkur grunnur til þess að byggja á og ég ætla áfram að vera bjartsýnn á að til séu lausnir sem við getum þróað og fundið í þessari samningalotu, bæði ríkið sem beinn aðili að viðræðunum og ríkið sem þátttakandi í að styðja við stöðugleika og frið á vinnumarkaði.