144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

aðgangur landsmanna að háhraðatengingu.

[15:25]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langar að taka upp þráðinn frá sérstakri umræðu í síðustu viku um jafnt aðgengi landsmanna að internetinu. Við píratar erum með þingsályktunartillögu þess efnis sem liggur núna inni í umhverfis- og samgöngunefnd og hefur verið svolítið tregt að hreyfa við henni þar, en við gerum okkar besta til að sjá hvort ekki sé hægt að finna einhvern flöt á því máli, sér í lagi í ljósi þess að nú er komin skýrsla frá starfshópi innanríkisráðherra sem heitir Ísland ljóstengt. Hv. þm. Haraldur Benediktsson fór fyrir þeim hópi. Þetta er mjög góð skýrsla og aðgerðaáætlanir þar til að tryggja að innviðirnir sjálfir sem tryggja netþjónustuna séu til staðar.

Jafnframt er annað mjög gott sem kemur fram í skýrslunni, í fyrsta lið að aðgangur að háhraðafjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standi öllum landsmönnum til boða óháð búsetu. Grunnþjónustuatriðið er mjög mikilvægt en í þessu hérna er talað um aðallega óháð búsetu. Ég sé ekki annað í skýrslunni þar sem kemur að tryggja það sem er kallað nethlutleysi sem er akkúrat vinkillinn sem við píratar höfum tekið sem þýðir að þegar maður er kominn með þetta grunnnet upp og hraðinn sem á að vera 100 megabæt á sekúndu 2020 sé til staðar, já, en að fjarskiptafyrirtækin geti ekki takmarkað hraðann á öðrum forsendum. Réttarstaðan verður að vera trygg.

Þetta er það sem þingsályktunartillaga okkar pírata miðar að og segir í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar að sé fullt tilefni til að grípa til ráðstöfunar til að koma í veg fyrir þessa þætti og mikilvægt að Alþingi hugi að umræðunni um nethlutleysi í þessum efnum.

Það er rosalega gott sem er í gangi, vinnan er byrjuð og það er byrjað að kalla þetta grunnþjónustu og fara í þá áttina. Ég (Forseti hringir.) hefði viljað styðja við þessa vinnu með því að þingið ályktaði að það skyldi tryggja þessa réttarstöðu, nethlutleysið. Ég vil spyrja ráðherrann hvort hann (Forseti hringir.) sjái það eitthvað sem trufli eða jafnvel hafi stuðning við starfið að þetta sameiginlega verk okkar tryggi þessa hagsmuni.