144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um makrílfrumvarpið.

[15:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður endaði á að tala um Færeyjar er kannski rétt að rifja það upp að það er rétt að þeir buðu upp hluta af makrílkvótanum. Hann fór til kínverskra verksmiðjuskipa, hann fór út úr færeyska hagkerfinu, og núna í dag eru Færeyingar að smíða einhvers konar kerfi inn í framtíð þar sem þeir eru að velta fyrir sér leigusamningum, sem er ekki ósvipað því og hæstv. ráðherra sem hér stendur hefur talað fyrir. Og makrílkvótafrumvarpið, hlutdeildarsetningin á makrílnum með tímabundnum heimildum er einmitt smíðað inn í slíkt umhverfi og það er vel að merkja fyrirmynd fyrir slíku. Hún er í Danmörku þar sem menn úthlutuðu makrílnum fyrst til sex ára og svo komst þingið að því að það væri fullstuttur tími og úthlutaði honum þá til átta ára.

Þar er engin umræða um að búið sé að gefa einum eða neinum neitt, og sama umræða ætti auðvitað að vera hér. Hv. þingmaður sat hér á síðasta kjörtímabili og þekkir það vel að síðasta ríkisstjórn og stjórnarflokkarnir þá ákváðu að taka hluta af makrílnum út úr því kerfi sem hér er og úthluta honum handvirkt í aðra potta, meðal annars til þess að tryggja, að ég held, að makríllinn yrði nýttur víðar en bara á Austurlandi, líka á Norðvesturlandi og hringinn í kringum landið. Ég hef skilning fyrir því sjónarmiði. En þegar hv. þingmaður kemur hér upp og talar um gjafakvóta núna hlýtur hann að velta því fyrir sér hverjir afhentu kvóta til þeirra aðila sem ekki höfðu neina veiðireynslu og í því lagaumhverfi sem umboðsmaður Alþingis sagði að síðasta ríkisstjórn hefði verið skylt að hlutdeildarsetja á grundvelli þeirra laga sem í landinu eru, þ.e. með reglugerð. Það er núverandi ríkisstjórn ekki að gera. Við erum að setja sérlög, tímabinda kvótann til þess að koma í veg fyrir nákvæmlega það sem hv. þingmaður er að saka ríkisstjórnina um.