144. löggjafarþing — 100. fundur,  4. maí 2015.

stefna í friðlýsingum.

658. mál
[16:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hryggir mig dálítið að heyra hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra koma hér upp og taka undir það, sem er að mínu mati algjör þvæla, að bíða verði eftir einhverri hnitasetningu og menn þurfi að samþykkja hnitasetningu á svæðunum í þinginu til þess að menn geti farið af stað með friðlýsingar. Menn þurfa nú ekki slíkar hnitasetningar þegar kemur að því að samþykkja að setja virkjanir í nýtingarflokk eða að hefja virkjanir á einhverjum landsvæðum. Það á ekki að hamla friðlýsingum að það vanti að samþykkja hnitasetningu á Alþingi.

Virðulegi forseti. Mér finnst skipta mjög miklu máli að ekki sé bara talað fallega í þessum stól heldur að menn láti verkin tala. Og það sem mér finnst að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra eigi að gera er að segja okkur það skýrt að hún muni ekki samþykkja breytingartillögur atvinnuveganefndar og hafið verði friðlýsingarferli lögum samkvæmt á þeim svæðum sem eru í verndarflokki. Það væri bragur á því.