144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:35]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Nú ætla ég almennt að víkja að umhverfi frumvarpsins. Við öll vitum að hér hrundi fjármálakerfið að megninu til og það eru ýmsar ástæður fyrir því en auðvitað kemur þar líka til einhvers konar skortur á siðferði á þessum markaði og síðan atburðarás sem fór algerlega úr böndunum og menn höfðu enga stjórn á þegar í óefni var komið. Farið var í að skrifa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna og þar var komið með fjöldann allan af ábendingum. Ríkisstjórn Geirs H. Haardes sem og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem hv. þingmaður var fjármálaráðherra framan af og lengst af, fóru í ýmsar aðgerðir til að lagfæra lagarammann og fengu erlenda og íslenska sérfræðinga til að veita ráðgjöf og gera úttektir. Þetta hefur verið mikil vinna og mikið ritað en ég verð að segja það — ég var reyndar ekki í þessari nefnd á þinginu og hef aldrei verið í viðskiptanefnd, hef komið þar inn af og til sem varamaður, en hef fylgst með þessu eftir megni — að það er mjög erfitt sem almennur þingmaður að hafa tilfinningu fyrir því hvort lagaumgjörðin um íslenskan fjármálamarkað sem er stór markaður, þarna eru líka lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, sé þannig úr garði gerð að viðunandi sé. Ég vildi spyrja hv. þingmann: Telur hann að svo sé? Telur hann okkur eiga langt í land og telur hann að Alþingi hafi næga yfirsýn yfir lagaumgjörðina?