144. löggjafarþing — 101. fundur,  4. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[18:37]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í raun og veru mundi ég segja að viðfangsefnið væri tvíþætt. Ef við horfum til baka til hrunsins og andrúmsloftsins á árunum fyrir það, varð okkur tvennt að falli umfram allt annað. Annað er huglægt eða siðferðilegt, það var andrúmsloftið, það var viðhorfið, það var græðgin sem var löggilt og því er kannski erfitt að breyta og erfitt að takast á við slíkt með lögum.

Hitt var svo grundvöllurinn sjálfur, götótt löggjöf, ónýtt eftirlit eða veikt eftirlit og sofandaháttur sem var að vísu tengt hinu fyrra því menn voru ansi samdauna þessu öllu saman. Það var ekki í tísku beinlínis að hafa efasemdir um að Ísland væri best í heimi og á réttri leið.

Hvað höfum við gert síðan? Jú, þessi vinna hefur staðið samfellt síðan. Fyrstu breytingarnar komu inn strax 2009 og aftur 2010 og 2011. Það er búið að breyta ýmsu í löggjöf á fjármálamarkaði. Ég nefndi áðan hluti eins og að takmarka lántökur til eigenda og tengdra aðila. Við erum búin að setja lög um fjármálastöðugleikaráð. Við höfum reynt að koma því á hreint hvar yfirábyrgðin á fjármálastöðugleika í landinu liggur. Það eru gerðar faglegar hæfniskröfur til þeirra sem eiga að sitja í stjórnum fjármálafyrirtækja eða eftirlitsskyldra aðila. Það getur enginn setið í stjórn nema eins slíks aðila o.s.frv. Ég gæti haldið lengi áfram að telja upp. Margt hefur verið gert og flest er það enn sem komið er til bóta þangað til menn fara að snúa ofan af þessu aftur. Við skulum vera vel á verði þegar fyrstu tillögurnar fara að koma inn um að slaka nú aftur á. Þá eiga kannski einhverjar bjöllur að hringja.

Það stóra sem ég hefði viljað sjá gerast í viðbót er aðskilnaður fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Ég lít á það sem stærsta einstaka álitamálið sem er óútkljáð og hefur verið fjallað talsvert um, (Forseti hringir.) t.d. í tveimur skýrslum til Alþingis en ekki verið tekin almennileg afstaða til enn þá og ég hef reyndar ekkert heyrt frá núverandi stjórnvöldum um hvaða hug þau hafi í þeim efnum.