144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

viðurlög við brotum á fjármálamarkaði o.fl.

622. mál
[15:52]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Ég er sammála öllum meginþáttum sem þar komu fram. Hv. þingmaður bendir á að í hruninu og á árunum eftir hrun og enn þann dag í dag sé takmarkaður skilningur hjá löggjafanum á veikleikum þessa kerfis. Ég held að það sé alveg rétt. Þá þurfum við að verulegu leyti að treysta á þá sem búa yfir gleggstum skilningi á kerfinu og hvernig það starfar. Þá erum við komin að mikilvægi uppljóstrara sem starfa innan kerfisins og þurfa að hafa frírra spil en þeir hafa nú til að koma upplýsingum um misferli á framfæri við almenning. Hv. þingmaður hvetur til þess í meðförum þingsins að gerð verði breyting á þessu lagafrumvarpi í þá veru.

Telur hv. þingmaður einhver tormerki á því að slík vinna gæti gengið greiðlega fyrir sig í ljósi þeirra viðhorfa sem fram hafa komið í umræðunni um nákvæmlega þetta atriði?