144. löggjafarþing — 102. fundur,  5. maí 2015.

meðferð og sala eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

705. mál
[21:02]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð bara að taka undir með hv. þingmanni að það virðist vera eitthvert rof, það vantar eitthvað upp á skilninginn, sem kemur sannarlega á óvart því að eins og hv. þingmaður fór yfir áðan voru sömu hv. þingmenn mjög háværir í kröfunni um að auka vald þingsins. Þess vegna ættu þeir að taka fagnandi hugmyndum um þverpólitíska eftirlitsnefnd eins og rætt var um fyrr í dag.

Það er náttúrlega svolítið einkennandi við málflutning stjórnarliða að það er nánast sama hvar maður ber niður ef maður skoðar nefndarálit eða ræður þá er eins og þeir hafi umpólast og skipt algerlega um skoðun og telja núna að það sem þótti gott fyrir hrun eigi að taka aftur upp. Síðasta ríkisstjórn skilaði svo góðu búi og stöðu samfélagsins á svo þægilegum stað greinilega að þeirra mati að búið sé að byggja upp allt traust og núna þurfi ekki meir, nú megi halda áfram á sömu leið og þessir sömu flokkar voru fyrir hrun. En það verðum við að koma í veg fyrir að gerist aftur því það mun aðeins bitna á kjörum fólksins í landinu ef við leyfum þeirri þróun að halda áfram.

Það sem gleður mig kannski og ég bind vonir við er að framsóknarmenn með hv. þm. Frosta Sigurjónsson í broddi fylkingar muni stöðva frumvarpið.