144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:45]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast nú ekki við að hafa verið að hnýta neitt í verkefnisstjórnina eins og hv. þingmaður hélt fram. Ég nefndi áðan að mér fyndist faghópurinn hafa tekið skamman tíma í sína vinnu, en ég geri ekki við það athugasemdir og vantreysti ekkert því sem frá þeim kom, tók það sérstaklega fram.

Ég fór ágætlega yfir rökstuðning nefndarinnar fyrir því að fara í Hagavatnsvirkjun og ég hef verið að fara yfir það og óþarfi að gera það enn og aftur. Varðandi Skrokkölduvirkjun þá á það sama við. Ég fór einmitt yfir það í nefndarálitinu að Skrokkölduvirkjun hefði mjög lítil áhrif á umhverfi sitt. Það eru þegar manngerð lón til staðar. Það verður eitt inntaksop sem kemur, ein göng, virkjunin verður byggð inn í göngunum og það er fyrirhugað að línulagnir frá þeirri virkjun verði í jörðu. Þannig að umhverfisáhrifin af þeirri virkjun eru mjög lítil og ég tel full rök til þess að halda þar áfram, enda var sá virkjunarkostur í nýtingarflokki …(Forseti hringir.) rammaáætlun …