144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

um fundarstjórn.

[17:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það hrannast upp álitamálin og er ærið tilefni til fundar þingflokksformanna og hæstv. forseta. Ég fagna því að af honum verði. Ég vil taka undir kröfur um að þingfundi verði frestað þangað til fundi þingflokksformanna og hæstv. forseta er lokið.

Eitt af þeim álitamálum sem þarf augljóslega að ræða, ekkert endilega í þingsal heldur til dæmis á samráðsvettvangi þingflokksformanna, er hvað sé siðlegt, ef löglegt, að bera fram sem breytingartillögu í máli. Hér var lagt fram þingmál af ráðherra sem fjallaði um eina tiltekna virkjun, Hvammsvirkjun. Efnisgreining með því máli er Hvammsvirkjun. Mjög mörg okkar teljum algjörlega ótækt að farið verði í einhverjar virkjanir á Íslandi á grunni mjög umdeilanlegra breytingartillagna við þetta tiltekna mál. Sjálfsagt hafa þingmenn rétt til (Forseti hringir.) að leggja fram breytingartillögur um hitt og þetta, en það eru ýmsar venjur í þessum efnum. Ef lagt er fram eitthvert frumvarp um tekjuskatt (Forseti hringir.) þá kem ég ekkert með breytingartillögur um alls konar hluti í skattalöggjöfinni (Forseti hringir.) sem varða ekki þá hlið málsins. Sama er verið að gera hér.