144. löggjafarþing — 105. fundur,  12. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[23:23]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hennar í þessa umræðu. Hún útskýrði margt. Ég er sammála hæstv. ráðherra að því leytinu til að í sjálfu sér eru engar nýjungar eða nýjar fréttir í því sem ráðherra er að segja, hvorki hér í ræðustól né í fréttum í kvöld eða undanfarið í þinginu. Það sem er fréttnæmt er í hversu miklu hrópandi ósamræmi tillöguflutningur meiri hluta atvinnuveganefndar er við skoðanir og málflutning hæstv. ráðherra í þessum efnum. Það er auðvitað það sem menn hafa verið að ræða í dag og velta fyrir sér og þess vegna er þátttaka og nærvera hæstv. ráðherra svo mikilvæg hér. Ef ekki er meiri hluti fyrir þeim tillögum sem hér eru til umfjöllunar er þetta auðvitað ekkert annað en reyksprengja sem hefur verið hent inn í þingið til að villa um fyrir mönnum. Þá er það auðvitað algjör tímaeyðsla (Forseti hringir.) og þess vegna mundi maður vilja spyrja hæstv. ráðherra: Hefur ekkert samráð verið haft á milli stjórnarflokkanna, á milli ráðuneytisins og atvinnuveganefndar um það hvernig þessu máli skuli haldið fram?