144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

rammaáætlun.

[11:44]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Mér þykir leiðinlegt að heyra hvað hv. þingmaður talar hér niður til þingsins, lítur nánast svo á að þingið eigi ekki að hafa neitt hlutverk annað en að afgreiða það sem kemur frá ríkisstjórninni. [Kliður í þingsal.] Það er eftir mikla umræðu og yfirlegu og skoðun í atvinnuveganefnd sem lögð er fram breytingartillaga sem við hljótum að minnsta kosti að vera tilbúin að ræða, virðulegur forseti. Við hljótum að minnsta kosti að vera tilbúin að ræða tillögu frá þinginu. Hver sem raunin verður hljóta menn að geta sammælst um það að taka megi málið á dagskrá og ræða það, að þingmenn hafi rétt til þess að koma með tillögur eins og hæstv. forseti þurfti reyndar meira að segja að úrskurða um og ætti þá vonandi að liggja fyrir þó að það hafi átt að vera augljóst fyrir.

Virðulegur forseti. Við skulum ekki tala til þingsins eins og hv. þm. Helgi Hjörvar gerði, við skulum sýna þinginu virðingu og fara að ræða málið, rökræða þá tillögu sem hér liggur fyrir.