144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

ummæli forsætisráðherra um rammaáætlun.

[12:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að taka vel í þá bón vegna þess að hér eru ekki neinar eðlilegar aðstæður í gangi og þess vegna er ekki hægt að beita því fyrir sig að hér komi tillögur inn með eðlilegum hætti. Hér er lokaumræða málsins í gangi og það var ákveðið af stjórnarmeirihlutanum að taka mjög afdrifaríkar breytingar við þingsályktunartillöguna inn í síðari umr. Hér er mjög óvenjuleg staða að öllu leyti og hún er ekki í boði stjórnarandstöðunnar heldur erum við eingöngu að reyna að hafa einhver áhrif á framvinduna við þær takmörkuðu aðstæður sem okkur er boðið upp á.

Mig langar að spyrja og biðja um efnislegt svar frá hæstv. forseta um hvort hann hafi haft til hliðsjónar álit um lagalega stöðu málsins frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu annars vegar og atvinnuvegaráðuneytinu hins vegar þegar hann skrifaði sinn úrskurð sem kynntur var hér (Forseti hringir.) fyrr í vikunni. Ég vil gjarnan (Forseti hringir.) fá svar við þessari (Forseti hringir.) spurningu vegna þess að það er hrópandi ósamræmi milli úrskurðarins og álita þessara tveggja ráðuneyta.