144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[15:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Við ræðum ítrekað hvort breytingartillaga meiri hlutans um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sé tæk til þinglegrar meðferðar á dagskrá þingsins. Hæstv. forseti hefur úrskurðað að svo sé og því sett málið á dagskrá. En það gengur hægt að framfylgja dagskránni vegna þess að hv. stjórnarandstaða kemur ítrekað upp og gagnrýnir þá ákvörðun og sættir sig hreinlega ekki við hana.

Ég spyr virðulegan forseta hversu langt megi ganga í því að mótmæla þessum úrskurði. Hér kom vissulega upphafleg tillaga frá hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni, um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk. Það gerist síðan að hv. atvinnuveganefnd gerir breytingartillögu við þá þingsályktun og hæstv. forseti hefur úrskurðað að tillagan sé tæk á dagskrá. Það er staðan sem við verðum að vinna með og við í meiri hlutanum hlítum að sjálfsögðu þeim úrskurði. Við hljótum þess vegna að geta haldið áfram með dagskrána.