144. löggjafarþing — 107. fundur,  15. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég er farin að hafa mjög miklar áhyggjur af því sem hér er í gangi. Hv. þm. Páll Jóhann Pálsson lýsir því yfir hér að honum þyki nóg um öll þau gögn sem flæða yfir … (Gripið fram í.) Jú, ef ég fæ að klára, ég ætla ekki að ætla þér neitt sem ekki hefur verið sagt, en þú sagðir eitthvað á þá leið að það væri verið að biðja um of mikið af gögnum til að áætla um vernd eða virkjun.

Svo kemur hv. þingmaður fram með gögn sem eru gömul og eiga ekki við um þetta mál, þessa breytingartillögu, og notar þau sem rök í þessu máli. Þá erum við farin að rugla eitthvað, við verðum að tala um sama hlutinn. Ég hef áhyggjur af þessu sem og því faglega mati sem hæstv. forseti vísar hér stöðugt í. (Forseti hringir.) Ég hef lesið það fram og til baka og ég verð að segja að í því efnislega eru engin fagleg rök sem mæla með því að við virðum ekki lög um rammaáætlun (Forseti hringir.) og tökum þessar breytingartillögur til skoðunar. Efnislega eru engin rök fyrir því.