144. löggjafarþing — 108. fundur,  19. maí 2015.

viðvera forsætisráðherra í umræðu um rammaáætlun.

[15:42]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt í sjálfu sér að fólk vilji ræða fundarstjórn forseta ef það hefur eitthvað út á dagskrá Alþingis að setja. Það er líka eðlilegt að menn kalli eftir samráði, en ef það liggur fyrir að menn eru ekki sammála um dagskrá Alþingis, verða menn þá ekki að una meiri hlutanum og þá kannski forseta Alþingis, að hann hafi vald til að stýra þingfundi og geti sett þau mál á dagskrá sem meiri hlutinn telur brýnt að ræða?

Ég nefndi hér og stend við það að fyrstu þrjár ræðurnar og fleiri sem ég hlustaði hér á voru ákall um áframhald umræðu sem átti sér stað í fyrirspurnatíma Alþingis. Það er ekki eðlilegt (BjG: Viltu fá …?) (Gripið fram í: … dagskrána.) og það er það sem forseti Alþingis á að stöðva. Undir þessum lið á að ræða fundarstjórn forseta, það á ekki að fara í efnislegar umræður um einstök mál (Forseti hringir.) eins og stjórnarandstaðan hefur gert, ekki bara núna heldur líka undanfarna daga og vikur, því miður. (Gripið fram í.)