144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[17:00]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þetta er orðið ofboðslega vandræðalegt, það verður að segjast eins og er. Ég er eiginlega farin að kenna í brjósti um meiri hlutann og býð það að við hættum þessu núna. Af hverju erum við ekki að ræða þingsályktunartillöguna um Hvammsvirkjun sem fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra lagði fram, tillögu sem hefur farið í gegnum ferli? Virkjunarsinnar, og þar fremstur í flokki formaður í atvinnuveganefnd, hv. þm. Jón Gunnarsson, eru að stíga á tærnar á sjálfum sér með því að hleypa ekki áfram málefnalegri umræðu um þingsályktunartillögu um þá virkjun. Mér finnst meiri hlutinn vera að skemma fyrir sjálfum sér í rauninni en ég veit ekki hvort þarf að borga einhverjum almennatengli mjög háar fjárhæðir til að segja það. Þetta ráð hérna var hins vegar alveg ókeypis.