144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:45]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé brýn þörf á því að við í atvinnuveganefnd fundum um þetta mál því það er greinilegt að uppi eru mismunandi sjónarmið eða mismunandi skilningur á því hvað fór fram á fundum okkar í nefndinni. Okkur hv. þm. Þórunni Egilsdóttur greinir greinilega á um hvað Skipulagsstofnun hafði að segja um umhverfismat framkvæmda.

Ég get verið sammála þingmanninum um að það kom fram í máli annarra að umhverfismat framkvæmda væri bara eðlilegt ferli sem tæki við og þar væri hægt að slá virkjanir út af borðinu, en ég hjó sérstaklega eftir því í máli Skipulagsstofnunar sem kom til okkar í annað skipti að þar var sagt mjög klárt að sveitarfélög væru bundin af ákvörðunum Alþingis og ef Alþingi ákveður að færa(Forseti hringir.) þessar virkjanir í virkjunarflokk þá eru sveitarfélög bundin af því. (Forseti hringir.) Ef skilningur er einhver annar hjá meiri hluta atvinnuveganefndar þá þurfum við að fara yfir það.