144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[18:10]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Það bætti því miður ekki um betur þegar hv. formaður atvinnuveganefndar blandaði sér í þessa umræðu. Mig langar til að lesa hér úr nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar:

„Verkefnisstjórn fól, hinn 22. október 2013, faghópi að fara yfir m.a. fyrrgreinda skýrslu og svör Landsvirkjunar og liggur fyrir mat faghópsins, dagsett 4. nóvember 2013, á óvissu um fyrirliggjandi upplýsingar um áhrif Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjunar. Faghópurinn taldi réttlætanlegt að færa Hvammsvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk en taldi hvorki réttlætanlegt að færa Holtavirkjun né Urriðafossvirkjun í nýtingarflokk.“

Faghópurinn telur ekki réttlætanlegt að færa þessa virkjunarkosti í nýtingarflokk. Hvernig í ósköpunum geta þá stjórnmálamenn komið og sagt: Ég er ósammála þessari niðurstöðu faghópsins, ég veit betur? [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.)