144. löggjafarþing — 109. fundur,  20. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[22:50]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Það væri ágætt að fá svar frá forseta um hvenær áætlað er að ljúka þessum fundi, ekki að það skipti neitt rosalega miklu máli hvort við verðum hérna í alla nótt eða ekki, ég er sannfærð um að forseta dreymir um að fá að sitja í þessum stóli í alla nótt í samfloti við föruneyti hv. þm. Jóns Gunnarssonar.

Ég sakna þess líka hversu fáir þingmenn sem greiddu atkvæði með kvöldfundi eru hér, en það er alltaf þannig. Þetta er alltaf eins. Við höfum ekkert lært, ekki neitt. Þingið ályktaði að við ætluðum að breyta vinnubrögðum hérna eftir hrunið. Það var þingsályktun sem allir þingmenn samþykktu en það hefur ekkert breyst og mun ekkert breytast fyrr en Píratar fá meiri hluta atkvæða.