144. löggjafarþing — 109. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[00:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Svona á að gera þetta. Þarna kom loksins svar. Það hefði getað komið miklu fyrr, þá hefðum við ekki þurft að spyrja svona oft. Svona ættum við gera hérna í meira mæli og þetta er í raun kjarninn í því sem við erum að sækjast eftir í öllum þessum ræðum um fundarstjórn forseta, nákvæmlega þetta, að spurningum okkar sé svarað og að það sé gert málefnalega. Þetta var mjög málefnalegt svar, skiljanlegt og skýrt. Það eru fjölmargar aðrar spurningar sem blasa við sem við þurfum að fá svör við. Besta leiðin til þess að tækla það allt saman væri nú að efna til fundar þingflokksformanna og jafnvel formanna flokkanna líka. Já, róttæk hugmynd, en þú veist, maður verður að hugsa út fyrir rammann. [Hlátur í þingsal.] Ég sting því að hæstv. forseta, það væri hægt að leysa þetta mál með því. Annars held ég að stjórnarliðar séu flestir farnir heim að sofa núna vegna þess að á morgun fáum við kannski að heyra nýja ástæðu frá hæstv. forsætisráðherra fyrir því af hverju við erum yfir höfuð að ræða þetta hérna og stjórnarliðar þurfa auðvitað að vera vel hvíldir (Forseti hringir.) þegar þeir heyra nýjustu ástæðuna. En hæstv. forsætisráðherra er örugglega ekki farinn (Forseti hringir.) að sofa, ég býst við að hann sé að gúgla og reyna (Forseti hringir.) að finna einhverja ástæðu fyrir þessu öllu saman. Kannski er þetta nauðsynlegt í afnámi hafta eða eitthvað slíkt.