144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:12]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Já, það er fullt tilefni til þess að hafa orð á því hvernig þingmenn eru farnir að blogga hér persónulega og það tók steininn úr þegar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir var hér á bloggi að fjalla um persónuleg samtöl mín og annars þingmanns sem eru sessunautar hennar í þingsal. Það hefur gerst ítrekað. Það gerðist áður í vetur þar sem hún setti inn á Facebook upplýsingar um persónuleg samtöl okkar. Þetta er algjör nýlunda hér.

Hér kemur hv. varaformaður Samfylkingarinnar og segir að við eigum að labba hönd í hönd í þessu máli. Svo kemur hv. þingflokksformaður Vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, og segir að við séum fullir vanþekkingar á þessu máli, vitum ekkert hvað við erum að gera og það verði enginn friður, sagði hún í ræðu sinni í gær, og engin sátt og ekkert samkomulag í þessu máli. Hvaða meining er í því að menn ætli að taka hér höndum saman um að leysa þetta mál? Meiri hlutinn hefur þegar slegið af umdeildasta virkjunarkostinn í breytingartillögum sínum (Forseti hringir.) og hefur opnað á umræðuna við einstaka þingmenn um það hvernig við getum leyst (Forseti hringir.) þetta mál. En það er bara stál í stál, vegna þess að niðurstaðan sem er í boði af hálfu (Forseti hringir.) minni hlutans er ekkert samkomulag; við skulum draga málið til baka, málið er óhæft, vanþekking meiri hlutans á málinu er algjör; þið vitið ekkert hvað þið eruð að gera. (Forseti hringir.) Þið vitið allt betur, hv. þingmenn minni hlutans, en við í meiri hlutanum, og við slíkar aðstæður getur auðvitað ekki orðið nein sátt. Þið skuluð halda áfram á þeirri ótrúlegu vegferð sem þið eruð í þessu máli og verða þingheimi og þinginu til skammar.