144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

rammaáætlun og kjarasamningar.

[10:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina því til hæstv. fjármálaráðherra að hér eru þingmenn á hinu háa Alþingi sem ekki voru í síðustu ríkisstjórn og það kemur málinu ekkert við hvað síðasta ríkisstjórn gerði hvað varðar það að eyðileggja rammann núna. Það þingmál sem er svo umdeilt er til umræðu hér og nú í tíð þessarar tilteknu hv. ríkisstjórnar, ekki síðustu ríkisstjórnar. Mér er bara satt best að segja alveg sama hvað gerðist á síðasta kjörtímabili, það breytir því ekki að við hljótum að vilja bjarga rammaáætlun og það er það sem þetta snýst um. Þetta snýst ekki einu sinni um einstaka virkjunarkosti, heldur snýst þetta um að bjarga rammaáætlun frá þessari bölvanlegu breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar.

Það eina sem þarf að gera til þess að hv. þingmenn meiri hlutans geti látið af sinni heilögu vandlætingu yfir því hvað minni hlutinn er vondur, er að bíða aðeins eftir 3. áfanga. Það er það eina. En hér koma þeir hneykslaðir og segja: Æ, hvað minni hlutinn er ægilega vondur, voðalega eruð þið hræðileg. Það eina sem við erum að biðja um er að (Forseti hringir.) beðið sé eftir löglegu ferli. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þetta er út í hött.