144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

ósk um fund forseta með þingflokksformönnum.

[14:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og ráðherrar kvarta sáran undan því að við skulum óska eftir að þeir komi hingað og ræði við okkur um kjaramálin. Það er eðlilegt vegna þess að í 45 daga hefur ríkið verið viðsemjandi við hópa sem enn eru í verkfalli, í 45 daga, virðulegi forseti. Það er merki um fullkomið ráðaleysi.

Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt í þessum ræðustóli að ríkið ætli að bíða þangað til aðilar hafa náð saman á almennum markaði. Hvernig virkar sú stefna fyrir okkur? Hvað gerist í næstu viku? Þá leggst af flug til og frá landinu. Þá hafa hjúkrunarfræðingar bæst í hópinn sem eru líka viðsemjendur ríkisins.

Virðulegi forseti. Allt ber þetta að sama brunni. Menn vita ekki hvað þeir ætla að gera. Menn vita ekki hvað þeir eiga að gera og þess vegna (Forseti hringir.) höfum við í stjórnarandstöðunni boðið það að við setjumst sameiginlega yfir þetta. (Forseti hringir.) Ef ríkisstjórnin er ekki til í það þá ættum við þingmenn að geta sest saman og reynt að finna einhverja lausn á málinu.