144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er sammála þingmanninum um að það er mjög gott samstarf í nefndinni sem við stýrum í sameiningu, allsherjar- og menntamálanefnd. En það er ekki alltaf jafn góður andi í þingsalnum. Það er auðvitað vegna þess að við erum hérna í beinni útsendingu og það hefur áhrif á það hvernig fólk talar, það er einfaldlega staðreynd málsins, sýnist mér.

Hv. þingmaður vísaði til þess og hélt ræðu um það að við í ríkisstjórnarflokkunum værum að slíta í sundur friðinn með þessum breytingartillögum. Þegar sá kafli í ræðu þingmannsins stóð yfir þá leit ég upp og hugsaði: Þetta eru nákvæmlega sömu orð og ég lét falla í umræðunni þegar fyrri ríkisstjórn kom með sínar tillögur varðandi rammaáætlun í gegnum þingið. Þau fóru gegn því meginmarkmiði allrar vinnunnar að reyna að skapa sátt um sjónarmið með því að troða inn breytingartillögum sem áttu að sætta ríkisstjórnarflokkana. Það var mín upplifun. Ég sat í verkefnisstjórninni. Þetta var mín upplifun, (Forseti hringir.) og ég hefði getað haldið þessa ræðu og ég hélt hana eiginlega fyrir nokkrum árum síðan.