144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að taka undir þá bón sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir varpaði fram hér. Það er orðið mjög hvimleitt, svo sterkari orð séu ekki notuð, að við séum föst í fyrsta lagi við að ræða fundarstjórn forseta, fyrst og síðast eða fyrst og næstsíðast, síðast auðvitað þessa rammaáætlun og bölvaða breytingartillögu hv. atvinnuveganefndar.

Það er samfélag í gangi fyrir utan þetta efni. Við eigum að vera að ræða annað og meira aðkallandi en þetta mál hér og nú, alla vega með þessari breytingartillögu. Þá vek ég athygli á því enn og aftur að minni hlutinn hefur ekkert sett sig upp á móti því að ræða Hvammsvirkjun, tillöguna sem hæstv. ráðherra lagði fram, heldur þessar breytingartillögur, vegna þess að þær eru ekki í samræmi við skilning margra á því hvernig ramminn á að virka og ramminn skal virka.