144. löggjafarþing — 110. fundur,  21. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[19:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hæstv. forseta að virða það við mig þó að ég setji svolítinn skólastjóratón í ræðuna.

Það var sett inn bráðabirgðaákvæði í lögin um rammaáætlun sem kvað á um að fara ætti í tólf vikna umsagnarferli. Ég segi eins og margir þingmenn hafa gert nú þegar, m.a. hv. þm. Guðmundur Steingrímsson og fleiri: Hvað átti að gera með það? Átti bara að segja: Þið megið senda athugasemdir og tala um þetta eins og þið viljið, við ætlum ekki að taka mark á því?

Þetta er aðferðafræði sem ég þoli ekki. Ég spyr fólk til þess að fá svör og ég tek mark á því sem fólk segir. Það var niðurstaðan að aðeins einn hluti verði tekinn út, þ.e. laxarökin skoðuð fyrir neðri hluta Þjórsár og svo koma ákveðin önnur atriði. Það er sett í biðflokk, það er fært til þess að skoða betur. Verkefnisstjórnin er sammála því að það þurfi að skoða betur. Ráðherrann sendir það þangað, þar er það til meðferðar núna. (Forseti hringir.) Svo koma sex þingmenn úr atvinnuveganefnd og segja: Nei, við vitum þetta miklu betur. Það er engin ástæða til að vera að bíða eftir einhverjum frekari sérfræðingum. Við erum alveg með þetta í fingrunum og ætlum að fá 63 þingmenn til að samþykkja það með okkur eins og ekkert sé. Ekki vinna svona.