144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

starfsáætlun þingsins.

[14:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Áður en gengið er til dagskrár vill forseti koma eftirfarandi á framfæri:

Á fundi forsætisnefndar sem haldinn var nú í hádegishléi varð það niðurstaðan í framhaldi af tillögu forseta að starfsáætlun yrði ekki lengur í gildi. (Gripið fram í: Oh!) Ég hygg að öllum hv. þingmönnum sé það ljóst að aðstæður eru á margan hátt erfiðar í þinginu. Við erum að fást við erfitt og snúið mál þar sem ágreiningur er djúpur og mikil óvissa um það með hvaða hætti þessari umræðu mun síðan vinda fram eða hvernig okkur gengur að leysa úr þeim hnút sem málið og þar með störf þingsins eru í núna.

Það er alls ekki öll nótt úti enn, langt því frá, en engu að síður er staðan sú að ekki er hægt að gera ráð fyrir því að þingið geti lokið þeim miklu verkefnum sem bíða í næstu viku eins og gert hafði verið ráð fyrir í starfsáætlun. Auk þessa erfiða máls bíða þingsins mörg önnur mál sem við þurfum að afgreiða og taka afstöðu til og komast að niðurstöðu um með hvaða hætti munu fá framgang í þinginu eins og alvanalegt er og allir þekkja við þær aðstæður þegar þingi á að fara að ljúka.

Loks vil ég nefna það, sem allir hafa gert sér grein fyrir, að hæstv. fjármálaráðherra hefur boðað að lagt verði fram á Alþingi þingmál sem lúta að gjaldeyrishöftunum og öllum er auðvitað mætavel ljóst að vinna við slíkt þingmál mun taka langan tíma þó að forseti geri ráð fyrir því að um málsmeðferð geti tekist góður skilningur á milli þingmanna.

Þessu skylt er þá nauðsynlegt að nefna jafnframt að það varð líka niðurstaða að eldhúsdagur sem áformaður var á miðvikudaginn í næstu viku verður ekki á þeim degi sem hryggja mun sjónvarpsáhorfendur um land allt. Nánari ákvörðun um hvenær sú umræða getur farið fram verður að bíða þess að við sjáum betur til lands um framvindu þingsins.

Forseti treystir sér ekki til þess á þessari stundu að nefna nákvæmlega dagsetningu um það hvenær stefnt verði að þinglokum í vor, svo mörg álitamál eru enn uppi að það er óábyrgt og yrði skot út í loftið að reyna að nefna einhverja dagsetningu á þessari stundu. Vitaskuld er nauðsynlegt fyrir framvinduna á einhverjum tímapunkti að við reynum í sameiningu að gera okkur grein fyrir því innan hvers tímaramma við hyggjumst starfa í framhaldinu.

Forseti vill taka það fram að þetta eru honum mikil vonbrigði. Forseti hafði í lengstu lög vonað að það tækist að halda starfsáætlunina og kostaði kapps um það en hann verður auðvitað eins og aðrir að lúta veruleikanum sem er sá að ekki er hægt við þessar aðstæður að ljúka þinginu innan þeirra marka starfsáætlunar sem við höfum unnið eftir fram að þessu.