144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Staðan í stjórnmálum á Íslandi er mjög alvarleg, fordæmalaus ófriður á vinnumarkaði og allt stendur fast í þinginu og á meðan fer Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, um allt land í aðför gegn framhaldsskólunum á landsbyggðinni með hótunum um sameiningar með takmörkuðu samráði. Í gær kom fram lögfræðiálit Andra Árnasonar um sameiningu Iðnskólans í Hafnarfirði og Tækniskólans þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að um ólögmætan gerning sé að ræða. Ráðherranum virðist vera einkar lagið að valda ófriði í málaflokknum sínum með hverju málinu á fætur öðru og er eins víst að þessi umræða muni einkennast af fleiri málum en þeim sem hér eru tilefni umræðunnar, þ.e. umræðu um miðstýrða styttingu framhaldsskólans með valdboði.

Sá andi sem sveif yfir vötnum við setningu nýrra framhaldsskólalaga á árinu 2008 var að tryggja sveigjanleika og val á framhaldsskólastiginu, sjálfstæði skólanna, þar með talið að því er varðar lengd náms og fjölbreytileika námsframboðs. Nú hefur einhliða verið vikið frá þessari stefnu þrátt fyrir það sem kemur fram í lögskýringargögnum og nefndaráliti með málinu á sínum tíma þar sem Illugi Gunnarsson, ráðherra málaflokksins, boðar einhliða styttingu framhaldsskólans þótt víða hafi um langt árabil verið hægt að ljúka stúdentsprófi á þremur árum.

Það vekur sérstaka undrun og umhugsun að sjálfstæðismaður í sæti menntamálaráðherra skuli með svo afgerandi hætti beita sér gegn vali og fjölbreytni. Það hefði einhvern tímann talist til tíðinda þar sem sá megintónn hefur löngum verið ríkjandi í herbúðum Sjálfstæðisflokksins. Um þessa umræðu gildir eins og svo margt í skólastefnu ráðherrans að umræðan er nánast ósýnileg á opinberum vettvangi. Hún sést ekki í fjölmiðlum og hún er ekki sjáanleg á Alþingi. Hver stórákvörðunin er tekin á fætur annarri án þess að samráð eigi sér stað við skólafólk, kennara eða sveitarstjórnarmenn. Jafnvel hefur heyrst að ráðherrann vísi í línur í fjárlagafrumvarpinu máli sínu til stuðnings eins og fjárlög séu sérstakt stefnuplagg í menntamálum. Það er ólíðandi að ekki eigi sér stað víðtæk umræða um þessi mál, bæði á vettvangi Alþingis en ekki síður í samfélaginu öllu. Við annað verður ekki unað.

Ég hélt ekki að það ætti fyrir mér að liggja að vitna í fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, Björn Bjarnason, en ég geri það hér þar sem hann segir á vefsíðu sinni í fyrradag um þessi mál öll:

„Þetta eru stórpólitískar ákvarðanir um fjölmenna opinbera vinnustaði. Þær ganga ekki upp án samráðs og samvinnu. Buslugangurinn í kringum Fiskistofu og flutning hennar ætti að vera ráðherrum og ráðuneytum víti til varnaðar.“

Spurningar mínar af þessu tilefni eru nokkrar, í fyrsta lagi:

Hvað mælir gegn því að viðhalda núverandi sveigjanleika í framhaldsskólum að því er varðar námstíma? Hver eru rök ráðherrans gegn því? Hvernig mun inntak stúdentsprófsins breytast með styttingunni? Liggur fyrir greining á því?

Í öðru lagi: Hvernig telur ráðherra að komið verði í veg fyrir að dregið verði úr vali á framhaldsskólastigi með þessari einhliða ákvörðun?

Í þriðja lagi: Með hvaða rökum synjar ráðherra sérstakri ósk Menntaskólans í Reykjavík um að bjóða áfram upp á fjögurra ára nám og taka við nemendum úr 9. bekk grunnskóla?

Í fjórða lagi: Hver er aðkoma kennara og skólasamfélagsins að stefnumörkun ráðherra í þessum efnum og öðrum þeim sem nú eru að valda uppnámi víða um land?

Í fimmta lagi: Hvaða áhrif mun styttingin hafa á stöðu framhaldsskólanna á landsbyggðinni og hvert er samspil styttingarinnar við sameiningaráform ráðherra á landsbyggðinni að því er varðar framhaldsskólana?

Í ágúst 2014 sagði Yngvi Pétursson, rektor Menntaskólans í Reykjavík:

„Við viljum hafa kerfið opið og sveigjanlegt, að það séu ekki allir skólar steyptir í sama mót.“

Virðulegur forseti. Af hverju er hæstv. ráðherra ósammála rektor Menntaskólans í Reykjavík hvað þetta varðar? Af hverju vill hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hafa kerfi framhaldsskólans á Íslandi lokað og ósveigjanlegt og þannig að allir skólar á Íslandi séu steyptir í sama mót?