144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:50]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég er sannfærður um að ef hæstv. forseti legðist yfir þetta deilumál með forustumönnum andstæðra skoðanahópa í þinginu fyndist lausn. Í fyrsta lagi hefur komið skýrt fram hér að þær upplýsingar sem voru birtar í atvinnuveganefnd í morgun sýna að Landsvirkjun hyggst ekki ráðast í Holtavirkjun fyrr en árið 2018, löngu eftir að 26 kostir eru komnir fram og afgreiddir hjá verkefnisstjórninni.

Í öðru lagi væri hollt fyrir alla að skoða hvað stendur út af hjá verkefnisstjórninni. Það hef ég gert. Þá kemur í ljós að það er í rauninni þrennt, í fyrsta lagi skilgreining á tilteknum rannsóknum sem ekki eru viðamiklar, í öðru lagi eftirlitsáætlun af hálfu Landsvirkjunar og í þriðja lagi viðbrögð Landsvirkjunar við því til hvaða aðgerða hún muni grípa ef mótvægisaðgerðirnar duga ekki. Mér finnst mjög einfalt að skoða þetta mál og finna á því lausn og það er hægt að gera tiltölulega hratt.