144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

kostnaður við nýtt húsnæðisbótakerfi.

[14:09]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn á ný spurningarnar og ítrekun á fyrri spurningum. Komið hefur fram, bæði frá hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra og mér, að breytingar á húsnæðiskerfinu geta verið mikilvægur þáttur í að liðka fyrir kjarasamningum, að bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem er á vinnumarkaðnum. Um það erum við öll sammála í ríkisstjórninni. Það ríkir því algjör einhugur hjá okkur um hvernig nálgast ber þessi mál. Við eigum að nýta tækifærið til að stuðla að góðri niðurstöðu í þessari erfiðu stöðu og bæta um leið stöðu heimilanna.

Einnig hefur komið fram, bæði hér í þingi og annars staðar, að unnið er að því í samráðshópi við aðila vinnumarkaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga að ná saman um þær aðgerðir sem við ætlum að fara í varðandi húsnæðismálin. Ég hef sagt varðandi það frumvarp (Forseti hringir.) sem við erum með í höndunum að það gæti komið fram hér, við skulum vona að það komi fram sem fyrst. En hvað varðar breytingar á lögum um jöfnunarsjóð er ýmislegt annað sem þarf að ræða við sveitarfélögin varðandi tekjustofna þeirra og það verður væntanlega eitt af því sem mun þá koma inn á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins.